þriðjudagur, janúar 22, 2008

Hér er smá viðtal sem birtist við föður minn Fréttablaðinu í gær

Sjoppum fækkar ört á Íslandi. Hver af öðrum gefast sjoppueigendur upp fyrir harðri samkeppni klukkubúða og bensínstöðva. Sjoppur sem enn hafa opið berjast með því að víkka starfssvið sitt, eru með videóleigu og grill. Í Hjartarbúð á Suðurlandsbraut ræður Ólafur Oddgeir Sigurðsson ríkjum og hefur gert í ellefu ár. "Já, það hafa mjög margar sjoppur hætt á síðustu tíu til fimmtán árum," segir Ólafur. "Það er orðið allt annað landslag í verslunarrekstri. Það sem hefur bjargað mér er að ég hef staðið vaktina sjálfur. Ég opna klukkan átta og hef opið til sjö, og ellefu til fjögur á laugardögum. Mér sýnist að sjoppur fari fljótlega á hausinn ef eigendurnir vinna ekki í þeim. Með því að vinna hér sjálfur hefur mér tekist að halda verðinu niðri. Verðið hér er ekkert sjoppuverð, meira eins og hjá kaupmanninum á horninu."
-
Ólafur segist ekki ætla að bæta videóleigu við reksturinn "enda skilst mér að það sé deyjandi fyrirbæri," segir hann. "Ég er með lottó sem trekkir og samlokur. Það var meira um rennandi traffík einu sinni. Nú staldra margir lengur við, lesa blöðin og fá sér kaffi. Ég býð upp á ókeypis kaffi allan daginn. Kúnnarnir eru sirka 90 prósent fólk sem vinnur hér í fyrirtækjunum í kring. Maður þekkir flesta með nafni, þetta eru allt orðnir vinir manns. Það má eiginlega segja að ég sé í þessu ánægjunnar vegna."
Sjoppueigandinn Ólafur lítur á sig sem verslunarmann. "Ég byrjaði hjá Silla og Valda árið 1964. Það var miklu meira gaman í þessu þá en kannski er það nú bara fortíðarþrá í mér. Ég byrjaði sem sendill á sérstöku sendlahjóli. Í búðinni var osturinn skorinn niður og seldur eftir máli og rúsínurnar vigtaðar. Eftir að Silli og Valdi hættu tók ég við einni búðinni þeirra og var með Verslun Óla Geirs á Hringbraut í fimm ár."
-
Ólafur segist ekki hafa neina sérstaka skoðun á lýsingarorðinu "sjoppulegur" sem er orðið fast í málinu og aðspurður hvort hann hyggist færa sig upp á skaftið í verslunarrekstri hlær hann og segir: "Ég held nú að Baugur þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Það er ekki yfirtökutilboð á leiðinni frá mér."- glh

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er glæsilegt viðtal við kallinn sem ekki lætur deigan siga í ólgusjó. Heldur sínu striki og sérstöðu þrátt fyrir að stóru blokkirnar "baugur og samráðs bensínstöðvarnar séu búnir að gera út af við flesta einstaklinga sem vilja stunda búðar rekstur.

kv ahj