miðvikudagur, janúar 16, 2008

Grasagarðurinn

-
Við Helga, Snæbjörn, Tómas og Ásta Hlín skelltum okkur í grasagarðinn hér í borg. Þetta er gamall og virðulegur garður, búinn til úr gömlu virkisveggjunum og síkjunum sem lágu í kring um miðaldaborgina. Íbúar voru svo skúffaðir á gagnleysi virkisins eftir að Englendingar létu fallbyssukúlum rigna yfir borgina 1807 að þeir kærðu sig köllótta þótt hluti virkisins væri rifinn og breytt í grasagarð 1871. Það var gaman að koma í garðinn og sérstaklega skemmtilegt að kíkja inní miðjuna á Pálmahúsinu. Þar er hitabeltisloftslag og margir kynlegir kvistir. Frá gólfi liggja hringstigar upp á 7 metra hringpall þar sem hægt er að skoða plönturnar ofan frá. Snæbjörn og Tómas prófuðu auðvitað stigana og pallana í þessu rúmlega 130 ára gróðurhúsi en svo vorum við rekin út sjö mínútum eftir innkomu okkar. Safnið lokar nefnilega klukkan 15:00. Best er að heimsækja grasagarðinn klukkan 13:00 á miðvikudögum því þá er stóra kaktushúsið opið, í klukkutíma. Það sést aðeins móta fyrir Tómasi í stiganum á hægri myndinni.


Engin ummæli: