laugardagur, febrúar 09, 2008

Hróarskelda heimsótt

-
Í dag sóttum við heim Hróarskeldu, hinn alræmda útihátíðar- og tónleikabæ. Tilgangurinn með okkar ferð var þó ekki til að detta í það eða til að hlusta á frægar hljómsveitir. Okkur langaði einfaldlega að taka smá rölt um bæinn sjálfan og skoða hús, götur og eina frægustu byggingu Dana, Dómkirkjuna í Hróarskeldu, ásamt hinu heimsfræga víkingaskipasafni. Það var virkilega gaman að ganga um bæinn, enda veðrið frábært og félagsskapurinn (Helga og Ásta Hlín) ekki verri.
-
Dómkirkjan í Hróarskeldu gnæfir yfir bæinn enda gríðarlega stór og stendur auk þess uppi á hæð.
-
Við sáum fullt af fólki á rölti eftir langri göngu- og verslunargötu og snæddum naut á Jensen´s Bøfhus. Þá, kíktum við á höllina í miðbænum en hún var ótrúlega sveitaleg með litlum styttuljónum úr Garðheimum fyrir framan einar dyrnar, en samt nokkuð svöl. Við borguðum okkur inn í Dómkirkjuna og sáum ekki eftir því því þar inni er ótrúlegt um að litast. Byggingin er full af merkilegum innanstokksmunum og skrauti. Þá eru ekki taldir allir legsteinarnir á gólfi kirkjunnar og líkkisturnar í grafhvelfingum hér og þar í byggingunni. Mér þótti það t.d. nokkuð sérstakt að standa fyrir framan líkkistu Kristjáns X (síðasta konungs okkar Íslendinga). Þá fórum við niður á höfn, sáum stokkendur, fólk að ganga í ýmsar áttir og víkingaskipasafnið með um 1000 ára gömlum víkingaskipum. Við enduðum ferðina í Nettó þar sem við fylltum kerruna hennar Ástu Hlínar af nammi og gosi (nammikvöld) og skunduðum svo heim á leið.
-

1 ummæli:

Arnar Olafsson sagði...

Smá fróðleikur. Dómkirkjan í Hróarskeldu var stofnuð af Absalon biskup um 1170, en áður var þarna kirkja allt frá árinu 900 e.kr. Dómkirkjan var ein fyrsta kirkjan sem var byggð úr múrstein og þegar hún var tilbúin, árið tólfhundruð og eitthvað, þá var hún ein fyrsta bygging utan Parísarborgar sem nýtti sér einkenni hins gotneska stíls. Ég hefði nú haldið það.