föstudagur, janúar 05, 2007

Demantsbrúðkaup ömmu og afa

Amma (Helga Sigurðardóttir) og afi (Þórður Snæbjörnsson) giftu sig 4. janúar 1947 sem þýðir að þau fagna demantsbrúðkaupi sínu um þessar mundir. Á tvítugsafmæli ömmu gerðu þau sér ferð upp í Eyrarlandsveg á fund sr. Friðriks Rafnar sem þá var prestur á Akureyri. Í för með þeim var Snæbjörn, þá rúmlega ársgamall (Athugið myndin hér til vinstri er ekki máluð við þetta tilefni).

Prestfrúin gætti Snæbjarnar meðan Friðrik gaf hjónaleysin saman og til að nýta nú ferðina til hins ítrasta var Snæbjörn skírður um leið. Eftir þessa látlausu athöfn héldu þau nýgiftu heim í kjallarann í Oddeyrargötu 38 og héldu litla veislu með fáeinum útvöldum vinum. Sigurður Hólm, pabbi ömmu, gaf sér ekki tíma til að mæta en hann var að spila Bridge. Hann gaf þó dóttur sinni eldavél en þar að auki fengu hjúin hraðsuðuketil, kristalsvasa (sem Baddi Brjál braut svo fljótlega) og sitthvað fleira til búsins.

Afi hefur væntanlega klæðst jakkafötum en amma klæddist bláum silkikenndum kjól með plíseruðu brjóststykki. Í veislunni var boðið upp á kaffi og kökur og örlítið lífsvatn til að væta kverkarnar. Fljótlega eftir brúðkaupið fluttu amma og afi í Ránargötu 12 og eignuðust börn og buru.

Á fæðingarári ömmu fyrir 80 árum gerðist þetta:

-Misheppnuð uppreisn kommúnista í Shanghai
-Vefarinn frá Kasmír kom út
-Elísabeth Englandsdrottning og hertoginn af Edinborg giftast
-Ungmennafélagið Smári í Bitrufirði var stofnað
-Framsókn vann stórsigur í kosningum þetta ár myndaði ríkisstjórn með Alþýðuflokki
-Benedikt Páfi fæddist þetta ár
-2 milljarðar bjuggu á jörðinni (langþráð takmark)
-Hagvöxtur var 12%
-Charles Lindbergh var maður ársins
-100 þús manns bjuggu á Íslandi
-Stór hluti Íslendinga þjáðist annað hvort af berklum eða kíghósta.

Hildur frænka tók þenna pistil saman.

Engin ummæli: