mánudagur, júlí 16, 2012

Ættarfróðleikur - Ásta Sigríður Ólafsdóttir


Í dag rakst ég á fróðlega síðu þar sem ég fann ýmsar mjög gamlar myndir af fjölskyldunni. Í kjölfarið ákvað ég að taka saman smá fróðleik og nokkrar myndir sem tengjast ömmu minni (langömmu minni) henni Ástu Sigríði Ólafsdóttur, sem var afar dugleg að passa mig þegar ég var yngri.

Æskuheimilið, gamla verslunarhúsið á Hofsósi, nú Vesturfarasetrið á Hofsósi.

Ásta fæddist á Sauðárkróki 8. september 1904, dóttir hjónanna Ólafs Jenssonar frá Innri-Veðraá í Önundarfirði og Lilju Haraldsdóttur frá Bjarnastöðum í Flugumýrarsókn í Skagafirði. Æskuheimilið var gamla verslunarhúsið á Hofsósi þar sem faðir hennar stundaði verslunarrekstur og hafði um tíma mikil umsvif. Þar ólst hún upp með bræðrum sínum, þeim Haraldi (fæddur 1906), Jens (fæddur 1909) og Baldri (fæddur 1911). Haraldur lést þegar hann var aðeins 16 ára, þegar hann hrapaði í björgum.

Vegna verðfalls á saltfiski tók Ólafur Jensson tók sig upp árið 1922 og fluttist með fjölskylduna til Siglufjarðar, þar sem hann vann verslunarstörf. Um 1928 flytur Ólafur Jensson enn með fjölskyldu sína og nú til Vestmannaeyja, þar sem hann tók við starfi póstmeistara, sem hann gegndi til dauðadags. Ólafur varð þekktur í Eyjum fyrir einstaka reglusemi og nákvæmni í allri sinni umsýslan ásamt fyrir virðulega framkomu, en Lilja, var hin milda og blíða húsmóðir, sem bjó til svo góðan mat að þekkt varð.
Ólafur Jensson, faðir Ástu
Lilja Haraldsdóttir, móðir Ástu

Haraldur Sigurðsson, móðurafi Ástu
(fæddur á Laugalandi, Eyj. 7. janúar 1856)
Sigríður Markúsdóttir, móðuramma Ástu
(fædd í Rípusókn, Skagafirði 7. október 1856)

Ásta giftist Oddgeiri Hjartarsyni 22. september 1927 og eignuðust þau fjögur börn, þau Guðbjörgu / Lillu (fædd 1927), Ólaf Harald (fæddur 1929), Lilju Goðmundu / Stúllu (1931) og Hjördísi / Diddu (fædd 1932).
Oddgeir og Ásta
Unga parið með frumburðinn, Guðbjörgu (ömmu mína).
Systkinahópurinn: Uppi t. v. er Óli, uppi t.h. er Lilla,
niðri t.v. er Didda (held ég) og niðri til hægri er þá Stúlla
Ásta með börnin, en ég veit því miður ekki hver konan
hægra megin er eða börnin tvö með henni.
Þessi mynd er líklega tekin í Vestmannaeyjum seint á fjórða áratugnum.

Hér læt ég staðar numið í bili:


Engin ummæli: